Leiguskilmálar

Ökutækið sem leigt er og leigutími þess.

  1. Leigusali rekstrarleigu er Íslensk-Bandaríska ehf., kt. 620498-3439, Þverholti 6, 270 Mosfellsbæ.
  2. Innifalið í rekstraleigu er 18.000 kílómetra akstur ökutækisins á hverju tólf mánaða tímabili talið frá undirritunardegi samningsins.
  3. Leigusali er skráður umráðamaður í ökutækjaskrá Samgöngustofu.
  4. Skráning heimilar leigusala ekki afnot af ökutækinu á leigutímanum, nema með þeim hætti sem sérstaklega er tekið fram í einstökum ákvæðum samnings.
  5. Skráður eigandi ökutækisins er Lykill fjármögnun hf., kt. 690121-2200, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík, hér eftir ,,Lykill“.

Þjónusta við ökutækið

  1. Leigutaka er skylt að mæta í allar þjónustuskoðanir sem mælt er fyrir um af ÍSBAND í þjónustubók ökutækisins, eða leigusali mælir sérstaklega fyrir um við gerð rekstrarleigusamnings.
  2. Viðurkenndur þjónustuaðili ÍSBAND skal annast þjónustu við ökutækið á umsömdum leigutíma. Þjónusta við ökutækið felur í sér smur- og þjónustueftirlit samkvæmt fyrirmælum og/eða staðli ÍSBAND.
  3. Leigusali ber allan kostnað af viðhaldi ökutækisins og búnaði þess, nema það sem rakið er til vanrækslu eða skemmda leigutaka.
  4. Leigutaka ber að tryggja að dekk, bremsur og annar öryggisbúnaður ökutækisins sé ávallt í góðu ásigkomulagi.
  5. Leigutaka er með öllu óheimilt að leita viðgerðar-, viðhalds- eða varahlutaþjónustu hjá öðrum en viðurkenndum þjónustuaðilum ÍSBAND. Fái leigutaki ekki umsamda þjónustu, skal hann láta leigusala vita þegar í stað með tölvupósti eða öðrum formlegum og sannanlegum hætti.

Leiga fyrir ökutækið o.fl.

  1. Leigutaka ber að greiða mánaðarlega fyrirfram leigu fyrir ökutækið. Fyrsti gjalddagi leigu er 1. næsta dagatals mánaðar eftir afhendingu ökutækis.
  2. Greiða skal leigu með greiðslukröfu sem ÍSBAND ehf. stofnar í netbanka leigutaka.
  3. Innifalið í leigu eru:
    1. Greiðsla fyrir afnot af ökutækinu samkvæmt 1. gr.
    2. Þjónusta við ökutækið samkvæmt 2. gr.
    3. Bifreiðagjöld.
    4. Vátryggingar, bæði ábyrgðartrygging og kaskótrygging á leigutíma, samkvæmt 8. gr.
    5. Árstíðarbundin dekk og dekkjaskipti.
  4. Á fyrsta gjalddaga skal leigutaki greiða leigusala leigu fyrir tímabilið frá afhendingu ökutækisins fram að fyrsta gjalddaga í réttu hlutfalli við dagafjölda.
  5. Leigan er óverðtryggð. Leigusali getur hins vegar hvenær sem er breytt leigu vegna breytinga sem kunna að verða á fjármagns- og/eða rekstrarkostnaði hans eða rekstrarumhverfi að öðru leyti.
  6. Breyting á leigu tekur gildi gagnvart leigutaka eftir að hún hefur verið kynnt á heimasíðu leigusala.
  7. Auk leigu skal leigutaki greiða eftirfarandi:
    1. Innheimtukostnað leigusala.
    2. Alla skatta og öll gjöld sem lögð eru eða kunna að verða lögð á leiguna, samning eða ökutækið. Þ.m.t. kílómetragjald sem er í dag 2 kr. á tengiltvinnbíla og 6 kr. á rafmagnsbíla á hvern ekinn kílómetra og verður innheimt tvisvar á ári. Leigusali mun kalla eftir mynd af kílómetramæli bílsins og gera reikning skv. uppgefinni kílómetratölu.
    3. Allar sektir sem á ökutækið og skráðan eiganda þess kunna að falla og rekja má til notkunar þess, til dæmis hvers kyns lögreglusektir og aukastöðugjöld.
    4. 31 kr. með vsk. til leigusala, fyrir hvern ekinn kílómetra umfram hámarkið sem tilgreint er í 2. mgr. 1. gr.
  8. Greiði leigusali einhverja kröfu sem leigutaka ber að greiða samkvæmt samningi öðlast leigusali endurkröfurétt á hendur leigutaka vegna hennar auk innheimtukostnaðar.
  9. Leigusali innheimtir endurkröfu sína á næsta gjalddaga leigu eða með sérstökum reikningum.
  10. Leigutaka ber að greiða virðisaukaskatt af leigu og öðrum virðisaukaskattskyldum greiðslum sem innheimtar eru í samræmi við samning, nema um annað sé samið.

Vanefndir

  1. Standi leigutaki ekki skil á leigu eða öðrum greiðslum sem honum ber að greiða samkvæmt samningi á eindaga falla dráttarvextir á skuld hans við leigusala frá og með gjalddaga til greiðsludags.
  2. Vanefni leigutaki samning ber honum að greiða leigusala, auk dráttarvaxta, allan þann kostnað sem leigusali þarf að efna til til að ná eða tryggja rétt sinn samkvæmt samningi gagnvart leigutaka.

Afhending og skil

  1. Við upphaf leigutímans afhendir ÍSBAND leigutaka ökutækið á starfsstöð ÍSBAND, nema um annað sé samið. Sé ökutækið afhent annars staðar en á starfsstöð ÍSBAND ber leigutaka að greiða allan kostnað og útgjöld vegna flutnings þess frá starfsstöð ÍSBAND til afhendingarstaðar svo og allar tryggingar vegna flutningsins.
  2. Ökutækið telst afhent þegar leigutaki veitir því móttöku með undirritun móttökustaðfestingar. Móttökustaðfestingin skal m.a. hafa að geyma upplýsingar um kílómetrastöðu á kílómetramæli ökutækisins.
  3. Leigutaki ber alla áhættu af ökutækinu frá og með móttöku þess.
  4. Leigutaki staðfestir með undirritun sinni á samningi að hann hefur skoðað ökutækið vandlega og gengið úr skugga um að það hafi umsamda kosti og eiginleika.
  5. Reynist ökutækið gallað fer um rétt leigutaka og skyldu leigusala samkvæmt skilmálum framleiðanda þess eða umboðsaðila við kaup á því.
  6. Við lok leigutíma eða við riftun samnings skal leigutaki skila ökutækinu á starfsstöð ÍSBAND, nema formlega sé samið um annað. Sé ökutæki skilað annars staðar en á starfsstöð ÍSBAND skal leigutaki greiða allan kostnað vegna flutnings ökutækisins á starfsstöð ÍSBAND sem og allar tryggingar vegna flutningsins.
  7. Ökutækinu telst skilað þegar starfsmaður ÍSBAND veitir því móttöku með undirritun móttökustaðfestingar. Móttökustaðfestingin skal m.a. hafa að geyma upplýsingar um ekna kílómetra á kílómetramæli ökutækisins.
  8. Leigusali ber alla áhættu af ökutækinu frá og með móttöku þess.
  9. Skili leigutaki ekki ökutækinu við lok leigutíma er leigusala, eða aðila sem leigusali veitir umboð sitt, heimilt að taka ökutækið úr vörslum leigutaka án atbeina sýslumanns.
  10. Strax í kjölfar afhendingar ökutækisins, hvort sem er við leigutíma lok eða fyrir riftun, skal leigusali láta framkvæma ástandsskoðun á ökutækinu af hálfu til þess aðila, sem meta á viðgerðarkostnað þess, ef einhver er.
  11. Leigutaka ber að greiða allan viðgerðarkostnað og kostnað leigusala við að sannreyna viðgerðarkostnaðinn.
  12. Í ökutækinu er við afhendingu ökuriti í eigu leigusala.
    1. Leigutaka er heimilt að nota ökuritann til flotastýringar meðan á leigutíma stendur.
    2. Einu upplýsingarnar sem leigusali hefur aðgang að úr ökuritanum er fjöldi ekinna kílómetra.
    3. Ökuritinn er beintengdur við ræsibúnað ökutækisins og verði einhver af riftunarástæðum samnings þessa virkar er leigusala heimilt að virkja afræsibúnaðinn sem veldur því að leigutaki getur ekki gangsett ökutækið.

Afnot og fleira

  1. Notkun á hinu leigða skal í alla staði vera eðlileg miðað við gerð og útbúnað hins leigða.
  2. Leigutaka ber:
    1. Að halda hinu leigða vel við og láta gera við allar skemmdir og bilanir jafnóðum og þær verða.
    2. Að fylgja öllum fyrirmælum stjórnvalda og öðrum þeim lögum og reglum sem gilda um bifreiðar eða notkun þeirra á hverjum tíma.
    3. Að fylgja ákvæðum samninga og skilmála sem gilda um vátryggingu hins leigða.
    4. Að sýna nauðsynlega aðgæslu við meðferð hins leigða.
    5. Að fylgja þeim leiðbeiningum framleiðanda sem kunna að verða gefnar um notkun hins leigða.
    6. Að nota ekki hið leigða til dráttar, nema það sé ætlað og útbúið fyrir slíka notkun.
    7. Að aka ekki hinu leigða utan vega.
    8. Að standa straum af öllum útgjöldum sem af meðferð hins leigða kann að hljótast og er ekki innifalið í leigugjaldinu.
    9. Að framselja ekki hið leigða öðrum aðila, veita ekki óviðkomandi aðilum afnot af hinu leigða eða afhenda ekki hið leigða með öðrum hætti.
    10. Að nota ekki hið leigða við kennslu eða í keppni, nema með skriflegu samþykki Leigusala.
    11. Að breyta ekki hinu leigða nema með skriflegu samþykki Leigusala.
    12. Að flytja undir engum kringumstæðum hið leigða úr landi.
  3. Leigutaki viðurkennir með undirritun sinni rétt leigusala til þess að kalla með skriflegum hætti ökutækið inn til skoðunar hvenær sem er með 7 (sjö) daga fyrirvara, þar sem kannað er ástand þess og mælastaða tekin. Sé ekki orðið við innköllun er starfsmönnum leigusala heimilt að taka ökutækið til skoðunar hvar sem til þess næst, m.a. á geymslustað og starfssvæði leigutaka.
  4. Samningur hefur engin áhrif á eignarrétt yfir hinu leigða. Leigutaki getur hvorki veðsett hið leigða né leyft aðför í því.

Tjón

  1. Leigutaki ber ábyrgð á og skal bæta leigusala allt það tjón sem verða kann á ökutækinu þar til því hefur verið skilað með formlegum hætti til leigusala.
  2. Leigutaki skal þegar í stað tilkynna leigusala skriflega eða með öðrum jafn tryggilegum hætti um tjón.
  3. Skylda leigutaka til greiðslu leigu eða annarra krafna samkvæmt samningi fellur ekki niður þó notkun ökutækisins stöðvist vegna tjóns eða bilunar á því.
  4. Sé unnt að gera við ökutækið að mati leigusala skal leigutaki þegar í stað láta gera við það hjá þjónustuaðila sem leigusali ákveður. Sé viðgerð útilokuð að mati leigusala eða hafi ökutækið eyðilagst er leigutaka skylt að bæta leigusala tjón hans að fullu. Vátryggingarbætur vegna tjóns á ökutækinu renna til leigusala og lækkar krafa leigusala á hendur leigutaka sem þeim nemur. Við mat á tjóni skal miða við verðmæti sambærilegs ökutækis í eðlilegu ástandi, eins og það er skráð hjá Bílgreinasambandinu og/eða vátryggingafélagi.
  5. Leigusali ber undir engum kringumstæðum ábyrgð á rekstrartapi leigutaka eða öðru óbeinu eða afleiddu tjóni leigutaka, svo sem glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði, hvort sem tjónið er rakið til greiðsludráttar, galla á hinu leigða eða annarra ástæðna.
  6. Leigutaki ber ábyrgð á því tjóni sem hið leigða kann að valda, með beinum eða óbeinum hætti, á meðan að samningur er í gildi eða þar til að hið leigða hefur verið skilað til Leigusala, hvort sem síðar reynist.
  7. Verði leigusala gert að greiða bætur fyrir tjón, þá á leigusali endurkröfurétt á hendur leigutaka.

Vátryggingar og skaðabótaábyrgð

  1. Ökutækið skal vátryggt lögboðinni ökutækjatryggingu, framrúðutryggingu og kaskótryggingu á meðan samningur er í gildi. Leigutaka er heimilt að taka sjálfur frekari vátryggingar vegna ökutækisins ef slíkt skerðir ekki hagsmuni leigusala.
  2. Leigusali kaupir ofangreindar tryggingar og eru þær innifaldar í leigunni.
  3. Leigusali mun tryggja ökutækið hjá TM tryggingar hf. meðan á leigutíma stendur.
  4. Sjálfsáhættu samkvæmt vátryggingarskilmálum ábyrgist leigutaki, kr. 200.000 í kaskótjóni og eigin áhætta í hverju tjóni, þegar skipt er um bílrúðu er 20% af heildarkostnaði, svo og allar kröfur af hálfu vátryggingarfélaga vegna brota á vátryggingarskilmálum.
  5. Leigutaki ber ábyrgð á því tjóni sem af notkun ökutækisins hlýst beint eða óbeint. Verði leigusala gert að greiða bætur fyrir slíkt tjón, þá öðlast leigusali endurkröfurétt á hendur leigutaka sem nemur þeirri fjárhæð auk vaxta, dráttarvaxta og alls annars kostnaðar.

Breyttar aðstæður

  1. Á meðan samningur er í gildi skal leigutaki láta leigusala vita án tafar ef eitthvað gerist sem kemur eða kann að koma í veg fyrir að hann fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt samningi.
  2. Leigutaki ber ábyrgð á að láta leigusala í té upplýsingar um búsetuskipti um leið og þau verða.

Riftun

  1. Leigusala er heimilt að rifta samningi með skriflegri tilkynningu til leigutaka vanefni eða brjóti leigutaki einhver ákvæði samnings og eins ef leigusali getur ekki lengur innt af hendi skyldur sínar samkvæmt honum. Sem dæmi um riftunarástæður má nefna:
    1. Ef leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi á umsömdum gjalddögum og vanskil hafa varað í 45 daga eða lengur.
    2. Ef leigutaki vanefnir ákvæði samnings að öðru leyti en greinir í a-lið málsgreinar þessarar, t.d. greiðir ekki sektir, skatta eða vátryggingar sem honum ber, og sinnir ekki áskorun leigusala um greiðslu eða úrbætur innan 7 daga frá því að áskorun þar að lútandi er send til leigutaka.
    3. Ef leigusala er óheimilt eða gert illmögulegt af hálfu hins opinbera, að standa við samning eða ef á leigusala leggjast verulegar kvaðir, af hálfu hins opinbera vegna samnings, hvort sem að slíkt leiðir til kostnaðarauka fyrir leigusala eður ei.
    4. Ef fjárnám er gert hjá leigutaka, bú leigutaka er tekið til gjaldþrotaskipta, leigutaki leitar nauðasamninga.
    5. Ef notkun hins leigða fer 50% eða meira fram yfir umsaminn hámarksakstur á ári.
    6. Ef leigutaki sinnir ekki reglubundnu viðhaldi á hinu leigða, vanrækir eðlilegt viðhald hins leigða og/eða mætir ekki í þjónustuskoðun með hið leigða samkvæmt ákvæðum samnings.
    7. Ef leigutaki verður uppvís að illri meðferð á hinu leigða.
    8. Ef leigutaki flytur hið leigða úr landi án samþykkis Leigusala.
    9. Ef leigutaki eða einhver annar er tekinn fyrir akstur undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna eða leigutaki er sviptur ökuleyfi.
  2. Sé samningi rift, þá skal leigutaki skila hinu leigða og afhenda það í samræmi við 5. mgr. 5. gr. samnings. Um rétt leigusala gagnvart leigutaka við riftun gilda einnig ákvæði 6., 7. og 8. mgr. 5. gr. eftir því sem við á.

Uppgjör við riftun

  1. Við riftun samnings ber leigutaka að standa leigusala skil á eftirfarandi greiðslum:
    1. Öllum greiðslum samkvæmt samningi sem fallnar eru í gjalddaga.
    2. Skaðabótum vegna alls beins og óbeins tjóns leigusala vegna riftunar. Rifti leigusali samningi, á leigusali ekki rétt á bótum samkvæmt tölulið þessum.
    3. Allt tjón sem orðið hefur á hinu leigða eða hið leigða hefur valdið meðan það var í vörslu leigutaka eða á ábyrgð hans.
    4. Allan kostnað sem leigusali verður fyrir vegna riftun samnings.
    5. Vexti og/eða dráttarvexti samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af kröfum sem tengjast uppgjöri vegna riftunar samnings.
  2. Um riftunarheimildir gilda að öðru leyti almennar reglur kröfuréttar.

Framsal og breytingar

  1. Leigusali áskilur sér rétt til þess að framselja öðrum aðila rétt sinn samkvæmt samningi, að hluta eða öllu leyti. Slíkt framsal skal ekki að neinu leyti skerða réttarstöðu leigutaka samkvæmt samningi.
  2. Leigutaka er óheimilt að framselja rétt sinn samkvæmt samningi án skriflegs samþykkis leigusala.
  3. Leigutaki staðfestir með undirritun sinni á samningi að hann hafi kynnt sér ítarlega framangreind samningsákvæði, þ.m.t. ákvæði er sérstaklega takmarka ábyrgð leigusala og riftunarákvæði, og hefur engar athugasemdir við ákvæði samnings.
  4. Hvers kyns breytingar eða viðbætur við samning skulu gerðar skriflega og vera undirritaðar af báðum aðilum.