Hjörtur L. Jónsson hjá Bændablaðinu reynsluók á dögunum Jeep Wrangler 4xe.

Þann 29. maí síðastliðinn frumsýndi Ísband í Mosfellsbæ nýjan Jeep Wrangler Rubicon 4xe PHEV bensín rafmagnsbíl með samanlagða hestaflatölu véla upp á 374 hestöfl. Sigurður, sölustjóri bíla hjá Ísbandi, hafði boðið mér að prófa bílinn að loknum frumsýningardegi sem var inni í sýningarsalnum.

Þegar ég mætti rétt fyrir lokun var salurinn fullur af fólki og greini­legt að fólk hafði mikinn áhuga á þessum bíl (steig næstum á Ómar Ragnarsson sem lá hálfur undir bíl að skoða undirvagninn).

Fullhlaðinn rafmagni kemst hann allt að 40 km

Ég fékk bílinn fullhlaðinn rafmagni og byrjaði strax á að mæla hver hávaðinn inni í bílnum væri á 90 km hraða, sem reyndist vera 69,8 desíbel (db.), en í bensínbílnum sem ég prófaði og skrifaði um hér 14.3. 2019 mældist hann rúmlega 70 db. Það skal tekið fram að bíllinn var á grófustu gerð dekkja sem hugs­ast getur, harðpumpuð í 40 psi og hvinurinn í dekkjunum var töluvert mikill, en samt mældist hann undir 70 db., sem er gott miðað við marga aðra rafmagnsbíla.

Í byrjun keyrði ég rólega og vildi sjá hvað ég kæmist langt á rafmagn­inu án þess að bensínvélin færi í gang. Eftir 32 km akstur fór bensín­vélin í gang. Ég var nokkuð ánægð­ur með það miðað við að veður var ekkert sérstakt og ég hafði verið að keyra upp og niður brekkur og í þröngum miðbæ Reykjavíkur.

11 lítrar á hundraðið í langkeyrslu á tveggja tonna bíl

Næst var það langkeyrsla með stuttum útúrdúr eftir mjög slæmum vegslóða (af Suðurstrandarvegi niður að Seltöngum við sjóinn). Það var ágætt að keyra bílinn í lang­keyrslu, framsætin góð og pláss gott, en aftursætin ekkert spennandi fyrir fullorðna. Vegslóðinn var holóttur og grýttur og fann maður vel fyrir að dekkin voru of hörð, en til að fá mýkri hreyfingu á bílinn í „klöngurs brölti“ er hægt að ýta á einn takka til að taka jafnvægisstangirnar úr sambandi (SWAY BAR fyrir framar gírstöng), góður kostur fyrir torfæra vegi.

Að loknum 110 km akstri, sem mest var á malbiki og á 90, sagði aksturstölvan að ég hefði verið að eyða 11,0 lítrum á hundraðið (mjög sáttur miðað við 2,3 tonna bíl). Til samanburðar var á frum­sýningunni hjá Ísbandi 40 tommu breyttur eins bíll og hafði farið íprufuakstur inn í Þórsmörk helgina áður og að sögn eiganda var hann ekki að eyða nema 12,5 lítrum á hundraðið með dekkin frekar harð­pumpuð.

Fáir gallar á skemmtilegum bíl

Á skjánum inni í bílnum er hægt að kalla fram mjög mikið af upp­lýsingum, m.a. bakkmyndavél, GPS leiðsögutæki, upplýsingar um hita á vélarolíu, kælivatni, skipt­ingu, olíuþrýsting o.fl. er í boði.

Hægt er að taka hluta af þakinu af bílnum á góðviðrisdögum, bíll­inn er með fullbúið varadekk (man ekki eftir öðrum en Jeep bílum sem eru PHEV bílar sem koma með full­búið varadekk).

Neikvæðu þættirnir eru ekki margir, en hliðarspeglar eru full litlir, þarf að kveikja ökuljósin handvirkt í björtu til að fá aftur­ljósin á svo að maður sé löglegur í akstri.

Dráttargetan á PHEV bílnum er lægri en í eldri bílnum sem var bara með bensínvél. Dráttargetan fór úr 2.370 kg. í 1.508 kg., en þetta er ókosturinn við rafmagnsbíla að þeir almennt mega draga minna en bílar sem eru bara með dísil eða bensínvél.

Verðið er gott miðað við hve mikið er af góðum búnaði í bílnum

Á frumsýningunni voru mikið breyttir Jeep Wrangler sem vöktu athygli mína, 35, 37 og 40 tommu breyttir bílar, en 40 tommu breytti bíllinn vakti hvað mesta athygli, verðið á þeim bíl var sagt vera 13.855.720 krónur. Virkilega veg­legur bíll með lægsta punkt 33 cm, en óbreyttur bíllinn sem ég prófaði er með 25,2 cm undir lægsta punkt.

Jeep Wrangler Rubicon 4xe PHEV kostar (óbreyttur) frá 9.490.000 upp í 10.490.000, 8 gíra sjálfskiptur (sérstakur kassi fyrir íslenskar aðstæður).

Í bílnum er svo mikið af auka­ búnaði að ekki er pláss fyrir þann texta í þessari litlu umfjöllun, en fyrir þá sem vilja fræðast meira vil ég benda á vefsíðuna www.isband.is.

Greinina, sem er á bls 46, og Bændablaðið má skoða í heild sinni HÉR