Bilablogg.is reynsluók Jeep Compass 4xe Plug-In-Hybrid. Niðurstaðan var einföld: Bravó Jeep!

Fjölmargir aðdáendur Jeep hafa beðið spenntir eftir tengitvinnútgáfu Compass og Renegade. Sú bið er á enda og nú er hægt að fá þessar fjórhjóladrifnu græjur hjá ÍSBAND.

Bíllinn sem undirrituð prófaði er Jeep Compass Trailhawk. Bensínvélin í honum er fjögurra strokka 1300cc túrbó sem ásamt rafmótornum skilar allt að 240 hestöflum.

Reynsluaksturinn hófst á því að hjartslátturinn fór upp í 150. Það kom ekki til af góðu en þannig var að ég var á heimleið frá ÍSBAND í síðdegisumferðinni. Heyrðist skyndilega mikið „búmm“ fyrir aftan mig og vantaði um metra upp á að Compass hefði verið árekstraprófaður! Það er eitthvað sem bílablaðamenn forðast alla jafna. Þetta hefði getað þjappað okkur enn betur saman en ég kynntist bílnum sem betur fer með eðlilegum hætti.

Nema hvað, á rafmagninu ók ég eingöngu fyrst í stað og komst um 30 kílómetra á því. Við bestu mögulegu aðstæður er gefið upp að komast megi 50 kílómetra á hleðslunni þannig að þetta var nokkuð gott að vetrarlagi á Íslandi.

Nei, hættu nú alveg!

Hámarkshraði þegar ekið er á rafmagni eingöngu er 130 km/klst. Það er nóg að vita það, maður þarf ekki að prófa. 7,4 sekúndur er hann frá 0 upp í 100 og það er nú bara flott. Sambærilegir bílar, t.d. Honda CRV, Nissan Qashqai og Ford Kuga eru 9,2 til 9,9 sekúndur frá 0 upp í 100. Gott að vita sé stefnan tekin á tengitvinnkvartmílu!

Nóg um það. Mér fannst hann ekkert of sprækur, enda bara búin að aka þessa 30 km á rafmagninu. Þá gerðist það: Uppáhaldstakki minn í mörgum bílum var líka í þessum og hann kallast SPORT. Nú gerðust hlutirnir hratt og örugglega!

Á rauðum Jeep um Djúpavatn

Það væri alveg út í hött að reynsluaka þessum bíl án þess að „jeppast“ á honum. Það væri álíka kjánalegt og að prófa rafmagnsgítar án þess að setja í samband!

Ég fékk leyfi til að fara í dálitlar torfærur án þess þó að láta sem ég væri að keppa í torfæru. Þar sem undirrituð hefur keppt á rauðum Jeep, reyndar Cherokee, í ralli á Djúpavatnsleið varð sú leið fyrir valinu. Svo langt sem það náði. Það náði mjög stutt því vegurinn var alveg í sundur og engin ástæða til að koma sér í bölvað klandur á þessum stað sem er alls ekki í alfaraleið.

Fyrir þá sem eru kunnugir staðháttum þá endaði ég á að aka Ísólfsskálaveg (hluta hans).

Þar er alls konar skemmtilegt; grjót, drulla, klappir og allt það sem prýðir góða og krefjandi rallýleið.

Auðvitað var ég ekki í ralli, heldur er leiðin einfaldlega góð til að reyna á og finna eiginleika bílsins.

Það að „drullumalla“ öðlast nýja merkingu

Compass Trailhawk er algjörlega skapaður til að aka eftir grófum og grýttum vegslóðum því hann er sérbúinn fyrir „brölt“. Undir framfjöðrun, gírkassa og millikassa eru nefnilega hlífðarplötur sem og undir bensíntanki og rafhlöðum. Látum frauðyrði, orðabelging og almenna orðafroðu eiga sig. Segjum þetta hreint út: Compass er sem sagt enginn aumingi. Hann er gerður til þess að drífa án þess að t.d. gat komi á pönnuna við minnsta tilefni.

Hátt og lágt drif er í bílnum og hægt að læsa því. Svo má velja um ýmsar drifstillingar. Þær eru: AUTO, SPORT, SNOW, SAND, MUD og ROCK.

Enginn var snjórinn á þessum tímapunkti og því fátt um SNOW stillinguna að segja að sinni. Hins vegar var töluvert af öllu hinu.

Í ROCK stillingunni var dásamlegt að finna hvernig bíllinn klifraði yfir grjótið og hafði ekkert fyrir því.

Hægt og rólega klöngraðist hann yfir hnullungana og gerðist það af svo mikilli yfirvegun að segja má að þetta hafi verið róandi og notalegt. Svona skreið bíllinn og yfir komumst við.

Það að „drullumalla“ vísar í huga manns í subbuskap og almenn leiðindi. Nema þegar maður var lítill. Þar sem ég var stödd í drullunni fjarri lifandi verum og farsímasambandi kom eftirfarandi upp í hugann: „Magnað hvernig bíllinn mallar í rólegheitum yfir drulluna í lága drifinu. Drullumallar,“ hugsaði ég. Ekkert vesen, ekkert spól, ekkert kjaftæði heldur bara notalegt drullumall fyrir fullorðna.

Það væri snubbótt að ljúka umfjölluninni um þennan skemmtilega bíl í „drullunni“ þótt þar hafi verið gaman. Hér kemur því örstutt samantekt um Jeep Compass.

Í heildina litið

Compass er skemmtilegur bíll sem glatt getur ökumann, farþega og aðra vegfarendur. Vegfarendur gleðjast yfir fegurð bílsins, hversu hljóðlátur hann er og hve lítið hann mengar jörðina okkar.

Farþegar gleðjast einna helst ef bílstjóri er skemmtilegur og þeir heyra í honum. Líka þeir sem sitja aftur í. Sonur minn átti mjög auðvelt með að spjalla við okkur gamlingjana sem í framsætum sátum.

Og við heyrðum í honum, þrátt fyrir aldur, rokkmúsík og fyrri störf. Bíllinn er hljóðlátur, líka þegar bensínvélin er í gangi.

Ekki þarf að útskýra gleði ökumanns því ánægjuefnum hafa þegar verið gerð skil. Fátt skyggði á gleðina en má þó nefna að þegar stefnuljós var gefið fylgdu háu ljósin oft með. Þetta er eitthvað sem lærist og festist í „vöðvaminninu“. Ekki hreinræktað vandamál, síður en svo.

Annað óheppilegt er, að mati undirritaðrar, að eins ljúft og það er að hafa hita í stýri og sæti þá er fúlt að þurfa að kveikja og slökkva með því að fara í gegnum tvö þrep á snertiskjánum.

Tæknilega er hann vel búinn; Snjallvæddur upp í þak og öryggisbúnaður eins og best verður á kosið. Ekki verður fjallað nánar í þau „milljón“ atriði en um þau má sannarlega lesa á vefnum www.isband.is.

Verð á Jeep Compass er frá 5.999.000 kr. til 6.599.000 kr.

Bíllinn er ákaflega hljóðlátur og ljúfur í þessari útgáfu. Tekur mjúk og hljóðlega af stað í venjulegri stillingu, en ef driftakkanum er snúið í „Sport-stillinguna“ koma „sportlegu“ eiginleikarnir í ljós fyrir alvöru.

Það var farið aðeins út af malbikinu og sett í lága drifið og stillt á stillingu sem kallast „ROCK“ þá komu alvöru „jeppaeiginleikar“ í ljós – og það ekki síður en á fullvöxnum Cherokee.

Ljósmyndir: Malín Brand og Jóhannes Reykdal

Greinina má lesa í heild sinni HÉR

Jeep Compass Limited dísil kom á markað í mars 2018

Lengi getur gott batnað

Þegar Jeep Compass kom á markað í mars 2018 var mér fenginn í hendur til reynsluaksturs Limited-útgáfan af Compass með dísilvél og töluvert af aukabúnaði, svo sem pakki sem aðstoðar við að leggja í stæði (með bakkmyndavél og fleiru), upplýsingatæknipakki, sem býður upp á stærri skjá í mælaborði, leiðsögukerfi og fullkomnari hljómtæki. Til viðbótar var þessi bíll búinn tvöföldu glerþaki og 19 tommu álfelgum. Til viðbótar var ýmis staðalbúnaður.

Í raun má segja að með öllum þessum búnaði er Jeep Compass frekar eins og „minnkuð útgáfa“ af stóra bílnum Jeep Grand Cherokee.

Núna líka „hybrid“ og líka kostur á „Trailhawk“

Þegar ég reynsluók Compass fyrir tveimur árum var það Limited-bíll með staðalgerð aldrifs, en án lága drifsins.

Núna er Compass hinsvegar kominn sem Plug-in Hybrid, eða tengitvinnbíll og núna er líka kostur á því að fá bílinn í þremur útgáfum: Compass Limited, Compass „S“ og loks Compass Trailhawk, sem er þá komin með valkost á háu og lágu drifi.

Ljúfur en öflugur

Bæði vegna þess að ég hafði reynsluekið Compass Limited á sínum tíma og er að nota einn slíkan með dísilvél í daglegum akstri í dag var það með nokkurri eftirvæntingu sem þessi tengitvinngerð var prófuð stuttlega, og ekki síður að prófa Trailhawk-eiginleikana í lága drifinu.

Bíllinn er ákaflega hljóðlátur og ljúfur í þessari útgáfu. Tekur mjúk og hljóðlega af stað í venjulegri stillingu, en ef driftakkanum er snúið í „Sport-stillinguna“ koma „sportlegu“ eiginleikarnir í ljós fyrir alvöru.

Það var farið aðeins út af malbikinu og sett í lága drifið og stillt á stillingu sem kallast „ROCK“ þá komu alvöru „jeppaeiginleikar“ í ljós – og það ekki síður en á fullvöxnum Cherokee.

Bíll fyrir alla!

Compass var góður fyrir, en í þessari tengitvinnútgáfu er hann enn betri en áður. Sparneytinn, með kosti þess að nýta rafmagnið – bíll sem nýtist til fulls fyrir þá sem vilja nýta eiginleika fólksbíls og jeppa í einum og sama bílnum.

Jóhannes Reykdal