Logi Bergmann Eiðsson hjá Bílablaði Morgunblaðsins reynsluók á dögunum RAM 3500. Uppfyllti RAM-inn allar hans væntingar en skv. honum var hann einstaklega rúmgóður, þægilegur í akstri, kraftmikill og vel útbúinn.

Á RAM 3500 má eiga yndislega og einstaklega ameríska akstursupplifun. Breytta útgáfan er á marga vegu mýkri og þægilegri.

Þegar ég settist upp í RAM 3500 langaði mig mest til að setja gott kántrí á og skella mér út á þjóðveg 1 með stefnuna norður. Það er eitthvað við ameríska bíla sem hreinlega kallar á langkeyrslu. Þessi bíll er nákvæmlega þannig. Þessi notalega þyngd og kraftur fyllir mann einhvers konar öryggi.

Ég held ég hafi síðast ekið RAM pallbíl fyrir fimmtán árum, þegar allir og amma þeirra áttu svoleiðis. Vinur minn lánaði mér stundum svona bíl þegar ég stóð í flutningum og það var bara hægt að henda öllu upp á pallinn.

Það hefur ekkert breyst. Pallurinn gerir það að verkum að mann langar hreinlega í einhvers konar framkvæmdir. Rífa eitthvað niður og skella á pallinn eða kaupa ógeðslega mikið af timbri sem maður hefur ekkert að gera með. Og ég stóðst ekki mátið. Reif niður girðingu og losaði mig við hana eins og ekkert væri. Pallurinn er nefnilega, eins og nafnið gefur til kynna, algjört einkenni þessa bíls.

En þessi pallur er öðruvísi. Það er búið að koma fyrir þægilegum hólfum sitt hvoru megin þar sem hægt er að setja veiðistangir, mögulega golfsett og jafnvel byssu. Svona ef menn vilja fara alla leið við að uppfylla staðalímyndina af manni á pallbíl með rauðan háls. Og gæti verið gott að vita að það er dren í hólfunum ef menn vildu kannski skella klaka í þau til að kæla eitthvað!

Tæknivætt farþegarými

En það er ekki eins og þessi bíll hafi verið eins og sá sem ég notaði fyrir hálfum öðrum áratug. Bíllinn er ekki lengur jafn hrár að innan. 2020-árgerðin er hlaðin búnaði. Tökkum hefur fjölgað og stjórnskjárinn í miðjunni er nokkuð sem engan hefði dreymt um í síðustu pallbílabylgju.

Í skjánum er þægileg stjórnstöð fyrir nánast allt í bílnum, allar stillingar, myndavélar, hiti, hljóð og sitthvað fleira. Aðgengilegur snertiskjár er mjög þægilegur en flestu er líka hægt að stjórna með tökkum, fyrir þá sem eru af gamla skólanum.

En það sem skilar sér best er Ameríkan í bílnum: Stærðin, þyngdin, plássið og svona ákveðin notalegheit. Öll amerísku hljóðin sem fylgja. Allt frá flautinu í læsingunni til bjölluhljóðanna þegar maður gleymir einhverju.

Kostirnir við bílinn eru margir. Hann er einstaklega rúmgóður, þægilegur í akstri, kraftmikill og vel útbúinn. Hann er í raun sex sæta því hægt er að breyta miðjunni í þriðja framsætið. Og það vantar ekki geymsluplássið, sem mér finnst alltaf skipta töluverðu máli. Nóg af hleðslu- og USB-tenglum og gott hljóðkerfi. Í heildina er hann tæknilega mjög vel búinn, til dæmis með mjög gott kerfi myndavéla, sem hjálpar til þegar maður þarf að bakka úr þröngu stæði.

Stærðin gleymist ekki

En þetta er bíll með ákveðið hlutverk. Þetta er ekki óskabíllinn fyrir snatt í miðbænum. Það er ekkert grín að finna bílastæði fyrir svona skrímsli. Það getur meira að segja verið frekar óþægilegt að feta þröngar götur því hann er heldur breiðari en venjulegur bíll. Sérstaklega í götum sem eru illa ruddar enda bil á milli dekkja heldur meira en hjólförin í snjónum. Og maður er minntur á að þessi bíll er engin smásmíði um leið og maður kemur að honum og þarf að nota fótstig til að koma sér uppí hann.

Ég prófaði tvær tegundir. Annars vegar nýjan og óbreyttan Crew Cab, hins vegar Mega Cab á 40 tommu dekkjum. Sú síðari var betri. Mýkri, stærri og heldur þægilegri. Það er nefnilega þannig að óbreyttur bíll getur verið nokkuð hastur. En það er ódýrt að skipta um dempara og breyta honum í miklu mýkri og skemmtilegri bíl til aksturs.

Svo er náttúrlega ekki við öðru að búast en að krafturinn og þyngdin hafi áhrif á eyðsluna. Hún er töluverð en þó heldur minni en maður hefði búist við. Í blönduðum akstri er mögulega hægt að sleppa með 17-18 lítra á hundraðið en það getur auðveldlega orðið eitthvað meira, sérstaklega á stærri gerðinni.

En þægindin og plássið fá mann aðeins til að gleyma eyðslunni. Draumurinn um að fylla pallinn, hækka í Amarillo by Morning og keyra eitthvert langt.

RAM 3500

  • 6,7 lítra Cummins-dísilvél m. forþjöppu

  • 370 til 400 / allt að 1355 Nm

  • 6 gíra sjálfskipting

  • Drif á öllum hjólum, hátt og lágt m. læsingu á afturdrifi

  • Eigin þyngd: frá 3.500 kg

  • 6,4 feta pallur

  • Verð frá 8.460 þús. kr

  • Umboð: ÍSBAND

Logi Bergmann Eiðsson/MBL
Ljósmyndir: Árni Sæberg/MBL