Morgunblaðið reynsluók á dögunum Jeep Grand Cherokee Trailhawk með 35” breytingu og Jeep Grand Cherokee Overland með 33” breytingu.  Báðir jepparnir uppfylltu væntingar blaðamanns sem komst að þeirri niðurstöðu að þeir væru lúxuskerrur í gervi torfærujeppa.

Hvað meira gæt­irðu þurft í bíl?“ seg­ir Siggi fé­lagi minn á meðan við virðum fyr­ir okk­ur hnapp­ana, inn­rétt­ing­una og skjá­ina í Jeep Grand Cherokee Overland-inum sem ég er með til reynsluakst­urs.

Á meðan við spá­um í spil­in, ber­um bíl­inn sam­an við hugs­an­lega keppi­nauta annarra bíla­fram­leiðenda, sest Gísli, ann­ar fé­lagi minn, aft­ur í og hall­ar sæt­inu vel aft­ur, enda bakveik­ur. „Það er mjög rúm­gott hérna aft­ur í. Hann stenst próf bakveikra. Þú get­ur skrifað það í þessa grein þína!“ seg­ir hann og bæt­ir eft­ir stutta um­hugs­un við: „Það er svona bíll sem maður á að vera á á Íslandi. Al­vöru lúx­us en ræður líka leik­andi við allt sem þig gæti langað að gera.“

Ekki er þó um að ræða hina hefðbundnu út­gáfu af Grand Cherokee Overland held­ur hef­ur þess­um jeppa verið breytt og komið á 33 tommu dekk. Gef­ur það vit­an­lega „jeppalegra“ út­lit og býður upp á fleiri mögu­leika, sem aft­ur marg­fald­ast þegar komið er á 35 tommu Grand Cheeroke-inn sem ég fékk einnig að reyna.

Allt sem trukk­ur þarf að hafa

Það verður ekki tekið af mín­um mönn­um í Ísbandi, umboðsaðila Jeep, að ein­stak­lega vel hef­ur verið staðið að breyt­ingu bíl­anna tveggja sem ég hafði til akst­urs nú í sept­em­ber. Er breyt­ing­in á 33 tommu bíln­um unn­in af þjón­ustu­verk­stæði þeirra en um 35 tommu breyt­ing­una sér Arctic Trucks.

Við 33 tommu breyt­ing­una eru 2 senti­metra upp­hækk­un­ar­k­loss­ar sett­ir und­ir bíl­inn að fram­an og 1,5 senti­metra að aft­an. Þá eru 33 tommu dekk sett á felg­urn­ar sem fylgja bíln­um, jafn­væg­is­stöng­um breytt og stilliörm­um fyr­ir loft­púðafjöðrun­ina breytt í sam­ræmi við upp­hækk­un. Við 35 tommu breyt­ingu eru kloss­ar sett­ir und­ir loft­púða og demp­ara og bætt við nýj­um örm­um í hæðarskynj­ara. 3 senti­metra hækk­un á fjöðrun og 35 tommu dekk á 17×9 tommu felg­um eru sett und­ir.

Grand Cheeroke kem­ur frá fram­leiðanda í þrem­ur út­gáf­um, Laredo sem er stand­ard-týp­an, svo kem­ur Trail­hawk og loks er flott­asta týp­an Overland.

35 tommu Trail­hawk­inn sem ég fékk að reyna hafði allt sem al­vöru trukk­ur þarf að hafa, og meira. Það kom ber­sýni­lega í ljós þegar ég renndi inn á gróf­an sveita­veg, fékk að finna fyr­ir mætti fjöðrun­ar­inn­ar og göslaðist yfir litl­ar ár.

Það fyrsta sem ég at­hugaði var hvernig Qua­dra-Lift loft­púðafjöðrun­in virkaði en með henni má hækka bíl­inn um allt að sjö senti­metra með ein­um hnappi. Er þar með búið að auka mögu­leika bíls­ins til muna, og átt­ar maður sig strax á því að Jeep-menn ætluðu sér ekki að hafa Grand Cheeroke-inn neinn mátt­vana jepp­ling. Er þessi mögu­leiki, sem dæmi, sér­stak­lega gagn­leg­ur þegar þvera þarf þung­ar ár, og þó að ég hafi í reynsluakstr­in­um ekki farið yfir nema nokkr­ar spræn­ur og eina eða tvær litl­ar ár fann ég vel hversu nyt­sam­leg þessi still­ing gæti verið ef maður væri á ferð yfir erfiðan slóða á há­lend­inu.

Þegar bíll­inn hef­ur verið hækkaður svona dug­lega minnk­ar fjöðrun­in þó eðli­lega mikið, og myndi maður því ekki end­ast lengi í þess­ari still­ingu, nema þegar nauðsyn krefði.

Í ann­ars kon­ar aðstæðum koma sér hins veg­ar vel forstillt­ar akst­urs­still­ing­ar trukks­ins. Hægt er að velja á milli still­ing­ar fyr­ir akst­ur í eðju, snjó, á sandi eða grjóti. Reyndi ég sem dæmi „rock“-still­ing­una á tor­færuakstr­in­um, skipti þá bíll­inn yfir í lága drifið og stillti hæðina, og virkaði still­ing­in ágæt­lega. Þótti mér þó einnig væn­leg­ur kost­ur að geta séð um still­ing­arn­ar sjálf­ur, þ.e. að skipta úr háa og lága drif­inu eins og mér sýnd­ist og sömu­leiðis geta stillt hæðina með því að ýta á einn takka.

Það vakti þó ánægju mína að þurfa ekki að fikta enda­laust í still­ing­un­um meðan á tor­færuakstr­in­um stóð, enda var Trail­hawk­inn á til­tölu­lega gróf­um dekkj­um og fjöðrun­in virkaði vel í þess­um aðstæðum þó hún væri ein­fald­lega á sjálf­gef­inni still­ingu. Ef ég hefði verið á lang­ferð hefði ég þó leyft mér að hleypa aðeins úr dekkj­un­um, sem voru vel pumpuð eft­ir akst­ur­inn á mal­bik­inu í miðborg­inni, og fann maður ör­lítið fyr­ir því. Er þar þó ekki við Jeep-menn að sak­ast því annað var með besta móti og kom trukk­ur­inn vel út úr tor­færu­próf­inu sem ég lagði fyr­ir hann.

Ekk­ert leynd­ar­mál

Þrátt fyr­ir að breyt­ing­in á bíl­un­um tveim­ur hafi komið vel út er það ekk­ert leynd­ar­mál að maður er að aka Grand Cherokee, og hann stend­ur fyr­ir lúx­us. Öfugt við það sem maður kannski hefði haldið, að jepp­inn myndi mögu­lega missa ein­hvern lúx­us­fíl­ing þegar búið væri að breyta hon­um, þá var það í raun öf­ugt: Hinn upp­hækkaði trukk­ur náði aldrei að fela það að inn við beinið væri hann lúxuskerra.

Þetta upp­lifði ég sér­stak­lega sterkt þegar ég spændi um bæ­inn á dýr­ustu týpu Grand Cherokee-sins, of­an­nefnds Overland. Overland­inn hef­ur m.a. fram yfir Trail­hawk­inn leður­inn­rétt­ingu (Trail­hawk er með leður að hluta), „panoramaopn­an­legt glerþak, öfl­ugri hljóm­flutn­ings­græj­ur og ýms­an ör­ygg­is­búnað.

Þó að áður­nefnd­ur lúx­us­fíl­ing­ur hafi einnig verið ráðandi í hinum 35 tommu Trail­hawk var hann alltumlykj­andi í hinum minna breytta 33 tommu Overland. Að aka á Overland­in­um á mal­bik­inu í Reykja­vík, fyr­ir mann sem er van­ur akstri jeppa eða smá­bíla, var líkt og að þeysa um á týpísk­um sport­bíl. Kraft­mik­ill og öfl­ug­ur, snar í snún­ing­um og mjúk­ur þrátt fyr­ir að pinn­inn væri kitlaður ör­lítið. Þótti mér einnig gam­an að upp­lifa hversu lítið maður þurfti að gefa inn til að spæna fram úr öðrum bíl­um í Ártúns­brekk­unni, í ljósi þess að maður var að aka breytt­um díseljeppa en ekki ít­ölsk­um sport­bíl. Var ég þá ekki einu sinni bú­inn að setja bíl­inn í sport-still­ingu, sem jók að sjálf­sögðu við þessa sömu til­finn­ingu.

Í morg­un­um­ferðinni gat ég gefið öðrum hlut­um en taum­laus­um hraðakstri gaum. Lát­laus en fáguð inn­rétt­ing­in heillaði mig mjög, straum­línu­lagað mæla­borðið og sæt­in þægi­leg.

Panorama-lúg­an var einnig notuð óspart, þrátt fyr­ir að komið væri inn í sept­em­ber, og allt stjórn­kerfi fyr­ir út­varp, blu­et­ooth-teng­ing­ar, ís­lenskt leiðsögu­kerfið og annað sem nálg­ast má í 8,4 tommu aðgerðaskján­um var með besta móti.

Vit­an­lega er Overland­inn bú­inn fleiri lúxuseig­in­leik­um, og var það í raun í kjöl­farið á því að Siggi fé­lagi minn fékk staðfest að það væri bæði hiti og kæl­ing í sæt­um að hann spurði svo eft­ir­minni­lega hvað meira maður gæti þurft í bíl, eins og að ofan er nefnt.

Ekki kárnaði gamanið þegar hann upp­götvaði að hiti í stýri, blind­hornsviðvör­un og raf­drif­inn aft­ur­hleri voru einnig á meðal þess sem lúxuspakki bíls­ins sam­an­stóð af.

Gísli hitti nagl­ann á höfuðið

Þegar öllu er á botn­inn hvolft er Grand Cherokee lúx­us­bíll. Það var því ánægju­legt að reyna á eig­in skinni hvernig unnt væri að auka við mögu­leika þessa þekkta bíl þæg­inda og fág­un­ar með því að breyta hon­um og hækka hann upp, og sjá hvernig hann fór leik­andi létt með hvert prófið á fæt­ur öðru sem lagt var fyr­ir hann af þessu til­efni. Lík­lega hitti Gísli bakveiki nagl­ann á höfuðið með sínu mati; það er svona bíll sem maður á að vera á á Íslandi.

Jeep Grand Cheeroke Trail­hawk & Overland

 • Þriggja lítra dísel­vél
 • Hest­öfl: 250
 • Átta þrepa sjálf­skipt­ing
 • Fjór­hjóla­drif­inn
 • Eyðsla í bl. akstri: 7 l/​100 km
 • Hæð (óbreytt­ur): 1,79 m
 • Lengd: 4,83 m
 • Breidd: 1,94 m
 • Far­ang­urs­rými: 782 lítr­ar
 • Kolt­ví­sýr­ings­los­un: 198 g
 • Umboð: ÍSBAND

Verð frá:

 • 10.990.000 kr. (Trail­hawk)
 • 11.740.000 kr. (Overland)
 • 33″ breyt­ing: 690.000 kr.
 • 35″ breyt­ing: 1.990.000 kr.

Greinina má lesa í heild sinni HÉR

Ljósmyndir: Eggert Jóhannesson/MBL