Morgunblaðið reynsluók á dögunum “urrandi fallegri” Alfa Romeo Giulietta.

Veloce er ít­alska orðið yfir hraða og hafa kraft­meiri út­gáf­urn­ar frá Alfa Romeo hlotið þessa nafn­bót í gegn­um tíðina. Giulietta Veloce kom fyrst á markað er­lend­is árið 2016 en er núna í fyrsta sinn fá­an­leg hér á landi.

Ég hafði ekki mikla reynslu af Alfa Romeo áður en ég fékk Giulietta Veloce að láni hjá Ísband en vissi samt vel að það er ein­hver róm­an­tísk­ur blær yfir þessu ít­alska merki, og marg­ir lofa fram­leiðand­ann fyr­ir að smíða bíla sem bjóða upp á ein­staka akst­urs­upp­lif­un. Um leið og ég sá Ölf­una fyllt­ist ég spennu, langaði helst að setj­ast beint inn og keyra af stað inn í sól­ar­lagið. Ég náði þó að stilla mig og gaf mér ör­lít­inn tíma til að skoða bíl­inn bet­ur, enda var klukk­an ekki nema rúm­lega 11 fyr­ir há­degi og ekk­ert sól­ar­lag í vænd­um.

Ein­kenn­andi út­lit

Þegar kem­ur að út­lits­hönn­un hef­ur Alfa Romeo, eins og svo oft áður, hitt nagl­ann beint á höfuðið. Fram­svip­ur­inn er sér­stak­lega vel heppnaður; þrí­hyrn­ingslaga grillið er gull­fal­legt, ljós­in falla einkar vel inn í heild­ar­formið og öll smá­atriði spila mjög vel sam­an, gefa bíln­um fágaðan lúx­us­blæ en halda út­lit­inu samt sport­legu og víga­legu. Það eina sem ég set spurn­ing­ar­merki við er staðsetn­ing­in á núm­era­plöt­unni, til hliðar við grillið. Það var reynd­ar ekki búið að festa núm­era­plöt­una á bíl­inn sem ég fékk í hend­urn­ar, held­ur hafði henni verið komið fyr­ir í glugg­an­um og verð ég að viður­kenna að mér þætti freist­andi að hafa hana þar til fram­búðar. Séð frá hlið er bíll­inn kúpt­ur og renni­leg­ur en ekki jafn gríp­andi og ef horft er á hann að fram­an. Bak­hlut­inn skart­ar ágæt­lega digru út­blást­urs­röri að neðan­verðu, eins og góðum sport­bíl sæm­ir, og rauða rönd­in á stuðar­an­um bind­ur slaufu á öll her­leg­heit­in, enda er sam­svar­andi rönd að framan­verðu. Á heild­ina litið er Giulietta Veloce ákaf­lega lag­leg­ur bíll en fram­hlut­inn stend­ur óneit­an­lega upp úr.

Af inn­an­rým­inu er svipaða sögu að segja; æp­andi rauð leður­sæt­in eru skemmti­lega „sportuð“ og inn­rétt­ing­in smekk­leg. Ein­kenn­islit­irn­ir rauður og svart­ur eru hér í aðal­hlut­verki eins og sést glöggt á saum­un­um í stýr­inu og gír­stöng­inni. Skjár­inn er þó frek­ar lít­ill, ekki nema 6,5 tomm­ur, en sam­bæri­leg­ir bíl­ar eru jafn­an með tölu­vert stærri skjá. Ekki hefði þurft að breyta inn­rétt­ing­unni mikið til að hafa hann ör­lítið stærri, takk­arn­ir sem stjórna miðstöðinni eru t.a.m. óþarf­lega fyr­ir­ferðar­mikl­ir.

Erfðaefni þróað að akstri

Þegar ég hugðist ræsa bíl­inn ætlaði ég að leggja lykl­ana frá mér og ýta á „start“ takk­ann en komst að því ég þyrfti að ræsa bíl­inn á gamla mát­ann sem er óvenju­legt fyr­ir nýj­an bíl í þess­um verðflokki. Fyr­ir fram­an gír­stöng­ina er val­rofi fyr­ir akst­urs­ham og er um þrennt að velja; Dynamic, Natural og All We­ather, eða „DNA“. D býður upp á meiri kraft, sem og næm­ara stýri og brems­ur, N er hefðbund­in akst­urs­still­ing og A still­ing­in tækl­ar erfið veður­skil­yrði.

Í fyrstu notaðist ég við Natural-still­ing­una og var bíll­inn þægi­leg­ur, lip­ur og skemmti­leg­ur í akstri. Eft­ir að hafa brugðið mér ör­lítið út fyr­ir bæj­ar­mörk­in skipti ég svo yfir í Dynamic og þá fyrst kynnt­ist ég Giulietta Veloce. Hún lifnaði öll við, snún­ings­mæl­ir­inn tók kipp, vél­in urraði og við þutum af stað. Mikið stuð, en bíll­inn er ekk­ert sér­stak­lega spar­neyt­inn og ekki erfitt að koma eyðslunni upp fyr­ir 8L/​100 km í inn­an­bæjarakstri, jafn­vel í Natural-still­ingu.

Hvar á sím­inn að vera?

Það fór vel um mig í akstr­in­um og fram­rýmið er rúm­gott. Geymslupláss er þó af skorn­um skammti; gla­sa­hald­ar­arn­ir litl­ir, hólfin í hurðunum frem­ur fá­tæk­leg og eng­inn aug­ljós staður til að leggja sím­ann frá sér. Aft­ur í er hins veg­ar þrengra um fólk og ég átti erfitt með að koma mér í þægi­lega stöðu fyr­ir aft­an öku­manns­sætið eft­ir að hafa stillt það af. Væri ef­laust óhent­ugt fyr­ir þrjár full­orðnar mann­eskj­ur í meðalhæð að sitja þar dægrin löng. Svo er skottið frek­ar lítið en alls ekki ónot­hæft, u.þ.b. 350 lítr­ar.

Þá galla sem ég hef talið upp hingað til finnst mér til­tölu­lega auðvelt að fyr­ir­gefa en ég hef meiri áhyggj­ur af skorti á ör­ygg­is­búnaði, t.d. eru blindpunktsaðvör­un og ak­reina­skynj­ari ekki til staðar. Ég á auðvelt með að ímynda mér að sum­ir, þó ekki und­ir­ritaður, gætu gleymt sér ör­lítið í akstr­in­um, ein­fald­lega vegna þess hversu gam­an er að keyra þenn­an bíl. Ná­lægðarskynj­ar­arn­ir eru prýðileg­ir og skjár í mæla­borðinu sýn­ir með ágæt­is ná­kvæmni hvar hætt­ur í um­hverf­inu er að finna. Það má jafn­vel segja að þeir séu óþarf­lega „var­kár­ir“ því þegar Giuliett­unni hafði verið lagt, jafn­vel eft­ir að sett er í „park“, halda nem­arn­ir áfram að vara mann við með til­heyr­andi lát­um.

Á heild­ina litið er Giulietta Veloce þó stór­skemmti­leg­ur bíll og býr óneit­an­lega yfir ákveðnum sjarma, jafn­vel þó beri á ákveðinni sér­visku á köfl­um, og þetta öku­tæki henti ekki öll­um. Fyr­ir fólk sem lít­ur ein­ung­is á bíla sem tæki til að kom­ast frá A til B með sem skil­virk­ust­um hætti er þetta hugs­an­lega ekki rétti val­kost­ur­inn, en fyr­ir okk­ur hin sem finnst akst­urs­upp­lif­un­in sjálf skipta máli mæli ég sterk­lega með því að gefa hon­um séns. Ef ég ætti að velja mér bíl til að keyra hring­veg­inn á væri Giulietta Veloce klár­lega of­ar­lega á lista.

Greinina má skoða í heild sinni HÉR
Ljósmyndir: Jón Tryggvi Sigurþórsson