Finnur Thorlacius hjá Fréttablaðinu gaf Alfa Romeo Guilia Veloce góða dóma í grein sinni í gær.

Reynsluakstur – Alfa Romeo Guilia Veloce

Í fyrra kynnti Alfa Romeo Guilia, bíl í sama stærðarflokki og BMW 3, Mercedes Benz C-Class, Audi A4 og Jaguar XE og við þessa bíla á hann sannarlega að keppa. Margir eru sammála um það að þarna hafi Alfa Romeo loks komið fram með bíl sem erindi á þessa hörðu samkeppni og víst er að hann hefur fegurðina í það og skákar þeim líklega öllum á því sviðinu, a.m.k. að mati greinarritara. Hann er að auki með innanrými og skottrými í þennan slag, sem og og úrval vélarkosta. Innflutningsaðili Alfa Romeo, Ísband í Mosfellsbæ hefur nýverið fengið magnaða útgáfu Guilia til landsins og er hann af Veloce gerð. Það þýðir að hann er með 280 hestafla vél, er fjórhjóladrifinn og kemur á einum flottustu 19 tommu felgum sem sjást. Ekki skaðar sanseraði blái liturinn á bílnum sem við ákveðið sjónarhorn í sól virkar fjólublár. Það verður ekki tekið af þessum bíl að þarna fer mikill töffari sem horft er á og ekki skortir hann krafta í kögglum og var þess vel notið.

Gríðarlegt vélarúrval

Guilia fæst með 200, 280 og 510 hestafla bensínvélum og 136, 150, 180 og 210 hestafla dísilvélum og með þessu úrvali er hann síst eftirbátur þýsku samkeppnisbílanna í vélarúrvali. Veloce útfærslan af Guilia sem reyndur var er með 280 hestafla bensínvélinni, en allt þetta afl fæst úr aðeins 2,0 lítra sprengirými. Með þessari hressilegu vél skortir þessi bíll aldrei afl og hann hreinlega hendist áfram sem viljugur foli. Guilia Veloce útgáfan er reyndar svo römm af afli að hann keppir öllu fremur við Audi S4, BMW 340i og Mercedes Benz AMG C43, sem allir eru reyndar með 6 strokka vélum. Hann er samt talsvert ódýrari bíll, en líka aflminni en þeir allir. Það hjálpar honum þó mikið að hann er meira en 100 léttari en þeir allir og þarf því ekki eins mörg hestöfl til að komast úr sporunum. Hann vegur aðeins 1.429 kíló og það tekur hann aðeins 5,2 sekúndur að ná 100 km hraða og á meðan á því stendur er býsna gaman. En hvernig skildi hann fara með allt þetta afl og hegða sér á vegi?

Frábærir aksturseiginleikar

Guilia er í sem stystu máli hrikalega skemmtilegur og hæfur akstursbíll með nákvæma stýringu, mikinn stöðugleika og ferlega lítinn hliðarhalla í beygjum. Hann liggur eins og klessa og þar sem svo auðvelt er að koma sér vel fyrir á frábærum framsætunum í bílnum og ná fullkominni akstursstöðu er strax gríðarlega gaman að henda þessum sportbíl um göturnar. Fyrir vikið fyllist ökumaður hratt sjálfstrausti bakvið stýrið og vill ólmur komast nær þeim getumörkum sem þessi bíll býður uppá. Vél með ekki stærra sprengirými en 2,0 lítra þarf öfluga forþjöppu til að skila öllu þessu afli en Alfa Romeo hefur tekist að fela það vel og ekki gætir mikils forþjöppuhiks eða væli í forþjöppunni og reyndar er hljóðið úr bílnum enn eitt sem gleður ökumann. Guilia er með þremur akstursstillingum, Dynamic, Normal og All Weather (DNA). Mikill munur er á þessum stillingum og þó svo í fyrstu flestir freistist til að taka bílinn ekki úr hörðustu Dynamic stillingunni þá er einfaldlega miklu þægilegra að aka bílnum í hinum stillingunum. Hitt er þó skemmtilegast. Fjöðrunin er svo góð í bílnum að hann er ekki einu sinni of harður í Dynamic og étur allar misjöfnur með bestu list. Allt er varðar akstursgetu þessa bíls virðist stillt að fullkomnun og því er mjög auðvelt fyrir ekki svo vana ökumenn að aka þessum bíl hratt, en örugglega.

Lagleg innrétting en til betri

Að flestu leiti er erfitt að setja útá þennan Guilia Veloce bíl, en þó verður að segjast að Alfa Romeo gerir ekki eins vel í innréttingunni í samanburði við þýsku samkeppnisbíla hans. Hún er þó sannarlega snotur en gefur manni ekki eins mikla lúxustilfinningu. Það er þó fremur hægt að hrósa Alfa Romeo fyrir einfaldleika hennar frekar en að vera flækja hlutina og flest lærist hratt í stjórntækjunum. Full ástæða er til að ítreka hve geggjuð framsætin eru, bæði í útliti og að sitja í þeim, en þar er ökumaður geirnegldur og ekki veitir af miðað við getu bílsins. Þó svo Guilia Veloce sé sportbíll að getu og aksturseiginleikum þá fer þarna 5 sæta bíll með gott aftursætispláss og fínt skottrými sem slær hátt í 500 lítrana. Hér er því kominn úlfur í sauðagæru sem fullt eins má skottast með krakkana á í skólann eða fara á í gott ferðalag. Alfa Romeo Guilia Veloce er einfaldlega ferlega gott útspil ítalska framleiðandans og kærkominn nýliði í þennan stærðarflokk. Þeir sem eru orðnir leiðir á sama útliti og nálgun þýsku samkeppnisbílanna ættu að íhuga að fá sér eintak af honum þessum. Hann vinnur fegurðarsamkeppnina og svo margt annað í leiðinni. Alfa Romeo Guilia má fá frá 5.990.000 krónum, en þessa Veloce gerð hans frá 8.290.000 kr.

Kostir: Útlit, aksturshæfni, þægindi, verð
Ókostir: Betri innrétting í sumum samkeppnisbílum
2,0 lítra bensínvél, 280 hestöfl
Fjórhjóladrif
Eyðsla: 6,6 l./100 km í bl. akstri
Mengun: 152 g/km CO2
Hröðun: 5,2 sek. í 100 km hraða
Hámarkshraði: 240 km/klst
Verð frá: 8.290.000 kr.
Umboð: Ísband í Mosfellsbæ

Fréttina má skoða í heild sinni HÉR

Ljósmyndir: Sigtryggur Ari/Fréttablaðið