Alfa Romeo Stelvio er einn sportlegasti borgarjeppinn á markaðnum.

Eins og allir bílaframleiðendur sem vilja vera með í leiknum er Alfa Romeo loks kominn með borgarjeppa á markaðinn. Stelvio heitir hann eftir samnefndu fjallaskarði í Norður-Ítalíu og er í flokki lúxusborgarjeppa og etur þar kappi við eigi minni spámenn en Porsche Macan, Mercedes-Benz GLC, BMW X3, Volvo XC 60, Audi Q5 og Land Rover Velar, svo einhverjir séu nefndir. Alfa Romeo er líka loks eftir langa bið kominn með öruggt heimili hjá Ísband í Mosfellsbænum sem er með umboð fyrir bíla Alfa Romeo, Fiat, Jeep, Dodge og Chrysler.

Ómengaður Alfa Romeo

Stelvio hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir að Alfa Romeo frumsýndi hann á bílasýningunni í Los Angeles í fyrra. Stelvio er millistór borgarjeppi og hann er með ómengað genamengi Alfa Romeo – ættarsvipmótið í grilli og vöðvastæltar formlínur allt frá vinddreifurum fyrir neðan framstuðara og flæðandi form alveg að afturhlutanum sem er dálítið klipptur og skorinn. Það er svífur ítalskur þokki yfir hönnuninni.

11,2 milljónir

Prófaður var kynningarbíll, svokallaður Launch Edition+, með tveggja lítra túrbóbensínvél, 280 hestöfl. Talsverður viðbótarbúnaður er í Launch Editio+ umfram Launch Edition, eins og stórt glerþak, þriggja þátta perlulakki og rauðar bremsudælur. Það hífir verðið upp í tæpar 11,2 milljónir kr. í stað 10.490.000 fyrir Launch Edition. En sá bíll er vissulega hlaðinn búnaði og vísast þar á heimasíðu Ísband um frekari upplýsingar.

Enn er dísilbíllinn ókominn en hann verður líklega sú útfærsla sem mest eftirspurn verður eftir hérlendis. Sú er er 2,2 lítra, 180 hestafla. Enn fremur verður Stelvio í boði með 510 hestafla V6 bensínvél á næsta ári og er sagður ná 100 km á klst á undir 4 sekúndum.

Akstursmiðaður

Ef menn eru sáttir við útlitið að utan er lítil hætta á því að þeir verði fyrir vonbrigðum með innanrýmið. Fyrsta gestaþrautin er þó að finna ræsirofann. Það er dálítið í takt við Alfa Romeo að koma honum fyrir á sjálfu stýrinu. Stelvio er akstursmiðaður bíll. Stjórntæki skulu vera innan seilingar. Ekta leður er í sætum og stjórnrýmið er hannað í kringum ökumanninn. Fyrir miðju er stór skjár þar sem öllum helstu aðgerðum upplýsinga- og afþreyingakerfis er stýrt en í millistokknum er svokallaður dna-rofi, erfðamengi aflrásarinnar, þaðan sem akstursstillingum bílsins er stýrt. A fyrir fjórhjóladrif, n fyrir normal og d fyrir dynamic. Óaðfinnanlegur frágangur er á öllu innandyra og efnisval eins og það gerist best þar sem samspil viðar, leðurs og álpedala gefur gefur tóninn.

20 cm veghæð

Bíllinn er þokkalega rúmgóður en þó fer ekki vel um þrjá fullvaxna í aftursætum á lengri ferðum. En farangursrýmið er flennistórt og djúpt enda ekkert varadekkið undir gólfinu heldur einungis viðgerðarsett. Aftursætin eru felld niður með einum rofa í hlið farangursrýmisins og myndast þá verulega gott flutningsrými.

Þetta er ekta Alfa Romeo, jafnt í útlitshönnun og akstri. Stelvio er byggður á breyttum undirvagni hinnar glæsilegu Gulia, en með 20 cm veghæð. Prófunarbíllinn var á voldugum 20 tommu álfelgum. Þríhyrningslaga grillið og fínleg LED ljós í framlugtunum gefa honum klassískt Alfa Romeo yfirbragð.

Borgarjeppar eru yfirleitt málamiðlun milli tveggja notkunarsviða þótt áherslan sé yfirleitt öll á akstur í þéttbýli. Stelvio er engin undantekning. Þetta er sama fjórhjóladrif og í Gulia fólksbílnum sem sendir mest af snúningsvæginu til afturhjólanna en tekur síðan mið af akstursaðstæðum þannig að dreifingin getur orðið 50:50 á milli fram- og afturhjóla. Stelvio býður upp á óvenju sportlega aksturseiginleika af borgarjeppa að vera. Skemmtilegast er að sjálfsögðu að aka honum í d-stillingunni og finnst mikill munur milli hennar og n-stillingar. Stýrið er fremur létt en ótrúlega nákvæmt og bíllinn leggst nánast ekki neitt þótt farið sé hratt í beygjur. Engu að síður er fjöðrunin fremur mjúk og aksturstilfinningin þægileg.

Tilbúinn hljómheimur

Það er dálítið magnað að ná 280 hestöflum út úr 2ja lítra vél. Aflið í Stelvio skilar honum á 5,7 sekúndum í 100 km á klst og það er sama hvenær stigið er á inngjöfina; hröðunin er söm. Stelvio kemur einungis með 8 þrepa sjálfskiptingu sem er hröð og lungamjúk. Aftan við stýrið eru einhverjir stærstu handskiptiflipar sem um getur og sami mikli skiptingarhraði er í handskiptivalinu. Ókosturinn við þessa risavöxnu flipa er sú hætta að rekast í þann sem stýrir niðurskiptingu þegar seilst er í stefnuljósið.

Þessi magnaða tveggja lítra vél hljómar á stundum eins og V6 eða jafnvel V8 og gleður auðvitað hjartað en menn skyldu hafa í huga að þetta er tilbúinn hljómheimur frá Alfa Romeo.

Stelvio vakti óskipta athygli meðan á reynsluakstrinum stóð. Ítalskur þokkinn heillar. En um leið vildu margir vita hvort óhætt væri að kaupa Alfa Romeo í dag, minnugir þess orðspors sem fór af þessum bílum á árum áður. Nú er engin reynsla komin á Stelvio og ekki heldur Gulia. En vitað er að Alfa Romeo fór í gegnum gríðarlega fjárfestingu við endurnýjun verksmiðju sinnar í Cassino sem lauk í fyrra og er hún í dag talin vera ein sú nútímalegasta í Evrópu.

Fjallað er um Alfa Romeo Stelvio í blaði Viðskiptablaðsins, Bílar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Þessi umfjöllun birtist í Viðskiptablaðinu 18. október 2017