Fiat Tipo

Fiat Tipo er stíl­hreinn í út­liti mbl.is/​RAX

Þessi umfjöllun birtist á mbl.is 26. september 2017

Hið forn­fræga ít­alska bíl­merki Fiat hef­ur held­ur legið í lág­inni hér á landi hin seinni ár en góðu heilli er stemn­ing­in öll upp á við með til­komu bílaum­boðsins ÍsBands (Íslensk-banda­ríska) sem hef­ur opnað rúm­góðan sýn­ing­ar­sal til að sýna merk­inu til­hlýðileg­an sóma.

Hinn reffi­legi smá­bíll Fiat 500 ætti að vera les­end­um að góðu kunn­ur enda sjást slík­ir bíl­ar reglu­lega renna um göt­ur borg­ar­inn­ar. Held­ur ætti að bæta í Fiat-flór­una á næstu vik­um og mánuðum og þar er Fiat Tipo á meðal val­kosta.

Ein­fald­ur bíll að sjá

Að utan er Tipo ekki ýkja af­ger­andi bíll að sjá – hönn­un­in er til að mynda ekki á pari við hinn sí­gilda Fiat 500 – en hann hef­ur samt ákveðinn sjarma sem skrif­ast lík­lega á ít­alskt erfðaefnið. Þessi bíll á lík­ast til að falla öll­um sæmi­lega í geð, helst ekki að stuða neinn og það tekst ágæt­lega. Þetta er strategía sem hæf­ir bíl í þess­um stærðarflokki sem á að vera sem allra flest­um aðgengi­leg­ur í verði, en bíl­inn má fá í sinni ein­föld­ustu gerð und­ir þrem­ur millj­ón­um.

Bíll­inn sem prófaður var hafði til að bera nokkuð af auka­hlut­um, sem eðli máls sam­kvæmt þyngja verðmiðann eitt­hvað, en það gladdi engu að síður af finna raf­drif­inn mjó­hryggs­stuðning í bíl­stjóra­sæt­inu, stór­an og góðan upp­lýs­inga­skjá sem gegndi hlut­verki bakk­mynda­vél­ar þegar við átti og annað eft­ir því. Tausæt­in voru þó með stíf­asta móti fyr­ir minn smekk. Tipo er þó rúm­góður og út­sýni öku­manns gott til allra átta. Þó finnst mér að hanna hefði mátt stýrið með aðeins meiri fág­un; miðjan á því er óþarf­lega klossuð og um­fangs­mik­il. Efn­is­valið er líka til­tölu­lega ein­falt – plastið er alls­ráðandi.

Hvik­ur án þess að vera hraður

Ökumaður fær fljótt á til­finn­ing­una að Tipo sé hvik­ur bíll því hann bregst við því þegar hon­um er gefið inn. Þó tek­ur það hann all­nokkra stund að ná upp hraðanum því togið er ekki til­tak­an­legt. Á móti kem­ur að hann er lip­ur og létt­ur í miðborg­arakstri, einkum þegar ýtt er á „City“-hnapp­inn í mæla­borðinu til að létta stýrið. Rétt er að fara var­lega í hring­torg og álíka beygj­ur því hann hall­ast óneit­an­lega svo­lítið þegar lagt er á. Ekki gafst færi á að prófa bíl­inn með bens­ín­vél en eins og verða vill með suma dísel­knúna bíla í C-flokki glamr­ar dísel­vél­in í Tipo tals­vert í hæga­gangi, þótt sjálfsagt sé óþarfi að láta það fara í taug­arn­ar á sér. Far­ang­urs­rými bíls­ins er mikið fyr­ir bíl í sín­um stærðarflokki og ætti að skila far­angri fjöl­skyld­unn­ar vand­kvæðalaust sína leið. Eyðslan var í kring­um sjö lítr­ana gegn­um reynsluakst­ur­inn, sem er held­ur í hærri kant­in­um fyr­ir þenn­an bíl.

Ódýr kost­ur í sín­um flokki

Það má ljóst vera af fram­an­greindu að Tipo er val­kost­ur fyr­ir þá sem vilja bíl í sama stærðarflokki og VW Golf og/​eða Opel Astra fyr­ir lágt verð. Á móti kem­ur að bíll­inn hef­ur sín­ar tak­mark­an­ir. Best­ur er hann í borg­inni og sem skap­lega verðlagður bíll með prýðlegt pláss er Tipo þess virði að skoða.

Fiat Tipo

Mæla­borðið er stíl­hreint, en efn­is­valið óspenn­andi og stýrið klossað. mbl.is/​RAX

 

Fiat Tipo

Plássið er býsna gott, framí sem aft­ur í, og vel ætti að fara um alla. mbl.is/​RAX

 

Fiat Tipo

Far­ang­urs­rýmið er 440 lítr­ar. mbl.is/​RAX

 

Fiat Tipo

Fiat Tipo er stíl­hreinn í út­liti mbl.is/​RAX

 

Fiat Tipo

Fiat Tipo er stíl­hreinn í út­liti mbl.is/​RAX

 

 

Þessi umfjöllun birtist á mbl.is 26. september 2017