Hjörtur L. Jónsón skrifar fyrir Bændablaðið 20. júlí 2017.

RAM 3500 Limited: Draumabíll fyrir marga og sérstaklega skotveiðimenn.

Á vormánuðum fregnaði ég að Ísband ætti von á nokkrum Ram 3500, strax og ég frétti af bílunum á bryggjunni falaðist ég eftir prufuakstri.

Í töluverðan tíma hef ég þurft að bíða eftir að fá að prófa Ram pall- bílinn vegna einhverra tafa í tolli.

Stór vél sem togar hreint ótrúlega

Vélin í Ram 3500 er 6,7 lítra Cummins dísilvél sem á að skila 385 hestöflum. Skiptingin er sex þrepa sjálfskipting. Dráttargetan er mikil og má Ram draga 3.500 kg kerru með bremsubúnaði á 50 mm kúlu. Ef stóll er á pallinum má hann draga rúm 14 tonn.

Strax og ég prófaði bílinn fann ég vel fyrir kraftinum og togið í vélinni er hreint ótrúlegt. Ég hef ekið bæði Ford og GMC með þungar kerrur og til samanburðar við þá þá virkar eins og að Ram sé með meira tog þó hestöflin séu skráð færri.

Alls ók ég bílnum um 130 kílómetra og aldrei var ég neitt að spara eldsneytið. Var sí og æ gefandi í og margsinnis var viðbragðið prófað úr kyrrstöðu bæði á jafnsléttu og í brekkum.

Í lok prufuakstursins sagði aksturstölvan að ég hefði verið að eyða rúmum 20 lítrum á hundraðið. Meðalhraðinn hafi verið rétt rúmir 30 km á klukkustund, en til sam- anburðar á einn skólabróðir minn eins bíl sem hann fékk fyrir rúmum mánuði og hefur keyrt yfir 3.000 km. Sagði hann við mig eftirfarandi: „Eyðsla 10,7 úti á vegi „crusið“ stillt á 93 og 12,8 lítrar með kerru sem var 1.300 kg og 200 kg sem- ent á pallinum. Svo er mín eyðsla innanbæjar frá 12,6 lítrum og upp úr.“ Greinilegt að skólabróðir minn hefur lært eitthvað sem ég læri seint og að mitt aksturslag er ekki það sem getur flokkast sem sparakstur.

Mikið af alls konar þægindum og hólfum

Stærð bílsins gefur til kynna að allt pláss er mikið, sæti góð og þægilegt að ferðast í bílnum. Þó var eitt sem angraði mig meira en annað, en það voru tuttugu tommu felgurnar og grjóthörð dekkin. Ef bíllinn væri minn myndi það verða mitt fyrsta verk að fá mér 17 tommu felgur og 35 tommu dekk sem passar beint undir bílinn. Hef séð þannig útbúinn bíl og lætur eigandinn vel af þeirri uppsetningu á bílnum á malarvegum og slóðum.

Hólf til að geyma ýmsa smáhluti eru mörg, en hrifnastur var ég af hólfunum tveim sem eru undir gólfmottunum við fætur farþega í aftursætunum. Þau hólf eru með loki og eru vatnsheld sem t.d. mætti fylla af ísmolum og kæla drykki í. Einnig eru stór hólf undir aftursætunum sem rúma mikið.

Pallurinn hentar vel veiðimönnum og má bera mikið

Á pallinn má hlaða miklu, en flestir pallbílar með mikla hleðslu eru þó eins og flugvél í flugtaki. Ram er með loftpúða sem pumpast út og jafna stöðugleikann (nefndir loftpúðajafnarar). Þrátt fyrir mikla hleðslu er bíllinn ekki mikið siginn að aftan.

Á skjólborðunum beggja vegna

eru stór læsanleg hólf sem eru vatnsheld (ef sett er t.d. klaki eða vatn í hólfin þá er tappi til að losa vökvann úr í botninum á hólfunum). Í þessi hólf er hægt að fá festingar s.s. fyrir byssur eða skóflur og fl. Skorðunargrind er á pallinum sem má færa til ef þarf að skorða eitt- hvað þar af. Einnig ef aka á með afturgaflinn opinn er hægt að nota grindina til að loka fyrir pall ásamt að festa niður pallgaflinn.

Fáir mínusar, en plúsarnir margir

Beygjuradíusinn er góður og glettilega gott að keyra bílinn þar sem þröngt er.

Ágætis útsýni er til allra átta út úr bílnum, það var aðeins tvennt sem ég fann að bílnum sem mér líkaði ekki fyrir utan amerísk mál í tommum og vegalengdir í mílum. Speglarnir á hliðunum eru ekki að mínu skapi. Ég vil hafa hvorn ofan á öðrum, en ekki hlið við hlið.

Svo voru það felgurnar og dekkin sem gerir bílinn allt of hastan á malarvegi og þegar farið er yfir hraðahindranir. Jafnvel litlar malbiksskemmdir finnast upp og inn í bílinn, sérstaklega að aftan.

Að öðru leyti finnst mér þessi ameríski pallbíll vera sá eigulegasti af þeim sem ég hef prófað til þessa.

Ram 3500 er hægt að fá á verði frá 7.490.000 kr. m/vsk, en bíllinn sem ég prófaði kostar 9.990.000 m/vsk.

 

Hér fyrir neðan er mynd af greininni eins og hún birtist í Bændablaðinu.